Síðumúla 25 108 Reykjavík Sími 552-2018 info@tasport.is (38)
Á slóðum Rómverja, Shakespeare, JRR Tolkien, CS Lewis, Churchill, Inspector Morse og Downton Abbey
Borgarferð
Bretland
London
4

Fjölbreytt sögu- og menningarferð um fegurstu sveitir Englands dagana 24. – 30. ágúst 2025

Verð kr. 389.800 á mann í tvíbýli.
Verð kr. 479.800 á mann í einbýli

 

Verð

389.800 kr.479.800 kr.

LÝSING

Við bjóðum nú í fyrsta sinn upp á fjölbreytta 6 nátta sögu- og menningarferð um fegurstu sveitir Englands.

Í ferðinni kynnum við okkur söguslóðir Rómverja í Bath og Silchester, William Shakespeare, Winston Churchill, Inspector Morse, JRR Tolkien, CS Lewis og Downton Abbey, auk heimsóknar til Stonehenge, sem sveipað er dulúðlegum ljóma.

Fararstjóri og leiðsögumaður er Sigurður Sverrisson (Premierferðir), sem hefur verið búsettur í Englandi mörg undanfarin ár. Auk hans munu sérhæfðir enskir leiðsögumenn leiða hópinn áfram í gönguferðum um Oxford og Bath.

Ítarleg ferðalýsing:

Dagur 1 | Flug til London og komið til Oxford
Flogið er með Icelandair til London Heathrow kl. 07.40. Fararstjóri tekur á móti hópnum við komuna til London en lending er áætluð kl. 11.55. Rúta bíður hópsins og ekur með okkur áleiðis til Oxford, þar sem gist verður í 6 nætur á 4 stjörnu hóteli í hjarta borgarinnar, Courtyard by Marriott.

Ef allt er eðlilegt má áætla komutíma á hótel ca. 13.30-14.00.  Við gefum fólki færi á að koma sér fyrir og hvíla sig aðeins áður en við förum í 90 mín. síðdegisgöngu um söguslóðir Oxford með innfæddum leiðsögumanni.

Að göngunni lokinni er dagurinn frjáls.

Tugir veitingastaða eru í stuttri göngufjarlægð frá hótelinu okkar, m.a. eru 7-8 veitingastaðir á efstu hæð hinnar glæsilegu Westgate-verslunarmiðstöðvar, um 300 m frá hótelinu.

Dvöl okkar í Oxford gefur þátttakendum í ferðinni mjög gott tækifæri til að skoða borgina utan þess sem skipulagt er í sjálfri ferðinni. Svo er líka hægt að sækja annars konar afþreyingu í búðarápi í Westgate fyrir þá sem eru þannig stemmdir.

Dagur 2 | Stonehenge og Bibury
Við tökum daginn snemma og leggjum af stað frá Oxford áleiðis til Stonehenge en þangað er ca. 75 mín. akstur. Þetta magnaða mannvirki er talið vera meira en 5000 ára gamalt. Þeim fer fjölgandi sem álíta að Stonehenge hafi verið stjörnuskoðunarstöð og menn hafi reiknað út dagatöl til forna eftir því hvernig skuggi sólar féll kringum steinana. Eftir að hafa tekið sólarhæðina í Stonehenge, fáum við okkur hádegisverð þar áður en við leggjum af stað til Bibury. Þetta litla þorp hefur ítrekað verið tilnefnt fegursta þorp Englands. Arlington Row, sem nú er friðuð húsalengja, er meira en 700 ára gömul! Frá Bibury höldum við svo aftur til baka til Oxford.

Dagur 3 | Silchester Roman City og Highclere Castle (Downton Abbey)
Áður en við heimsækjum Bath seinna í ferðinni er nauðsynlegt að kynna sér betur slóðir Rómverja í Englandi. Silchester Roman City er með einna heillegustu minjum frá valdatíma Rómverja. Þótt aðeins séu eftir rústirnar einar má vel gera sér í hugarlund hvernig umhorfs hefur verið á blómatíma þeirra. Frá Silchester ökum við til Newbury og snæðum hádegisverð á The Hare & Hounds áður en við heimsækjum Highclere Castle, sem var sögusvið Downton Abbey-sjónvarpsþáttanna vinsælu. Ekki aðeins er kastalinn glæsilegt mannvirki heldur umlykja hann fagrir garðar.

Dagur 4 | Stórbrotin söfn og Blenheim Palace
Strax eftir morgunverðinn röltum við áleiðis að tveimur stórbrotnum söfnum í Oxford, en innangengt er á milli þeirra. Þetta er annars vegar náttúruminjasafnið Oxford University Museum of Natural History og hins vegar Pitt-Rivers Museum sem hefur að geyma ótölulegan fjölda menningartengdra muna alls staðar að úr heiminum. Að safnaheimsókn lokinni rennum við til Blenheim Palace, fæðingarstaðar Winston Churchill, þar sem við gefum okkur góðan tíma til að skoða höllina og hina stórbrotnu garða umhverfis hana. Þar gefst okkur jafnframt tækifæri til þess að fá okkur hádegisverð á einhverjum þeirra fjögurra staða í Blenheim Palace sem bjóða slíkt.

Dagur 5 | Bath og rómversku böðin
Við leggjum af stað eftir morgunverð áleiðis til hinnar sögufrægu borgar Bath. Ætla má að akstur þangað taki 80 mín. Við komuna tekur á móti okkur innfæddur leiðsögumaður og fer með okkur í ca. 90 mín. sögugöngu um borgina. Við fáum okkur svo hádegisverð áður en við skoðum hin víðfrægu böð Rómverjanna, Roman baths, sem eru meira en 2000 ára gömul og einstök í sinni röð á Englandi. Við leggjum svo af stað áleiðis til Oxford að heimsókn lokinni í rómversku böðin.

Dagur 6 | Stratford-Upon-Avon og Shakespeare
To be or not to be? Við velkjumst ekki í vafa og tökum stefnuna á fæðingarbæ William Shakespeare, Stratford-Upon-Avon. Við skoðum húsið, þar sem þessi mikli orðsins snillingur fæddist fyrir meira en 500 árum og skoðum einnig einstaklega vel varðveitt híbýli (cottage) unnustu hans og síðar eiginkonu, Anne Hathaway. Á milli þessara heimsókna heimsækjum við Stratford Butterfly Farm, stærsta garð sinnar tegundar á Englandi, og fáum okkur jafnframt hádegisverð á The Dirty Duck-pöbbnum.

Dagur 7 | Á slóðum Inspector Morse og Lewis arftaka hans
Eftir morgunverðinn þurfum við að tékka okkur út af hótelinu áður en við förum í 90 mínútna göngu um Oxford á söguslóðir Inspector Morse og arftaka hans, Inspector Lewis, með innfæddum leiðsögumanni. Eftir gönguna er ekkert eins viðeigandi eins og að fá sér hádegisverð á The Trout Inn-pöbbnum í Wolvercote. Þessi pöbb hefur einmitt komið við sögu í ótal þáttum um Inspector Morse og Lewis. Eftir hádegisverðinn höldum við aftur til Oxford, þar sem fólk getur ráðstafað tímanum að vild fram að brottför út á flugvöll um kl. 17.

Fararstjóri áskilur sér rétt til að færa einstaka liði ferðarinnar til á milli daga, eða innan þeirra, ef aðstæður krefjast þess.

bóka ferð


Myndagallerý

Hafa samband